Fita endurnýtt sem eldsneyti


Líforka, nýtt fyrirtæki í framleiðslu eldsneytis hér á landi, hefur þróað aðferð til að endurnýta alla þá fitu og olíu sem til fellur hjá matvælaframleiðendum á Íslandi. Um er  t.d. að ræða matarolíu á matsölustöðum,  hjá fiskvinnslu- og kjötiðnaðarfyrirtækjum og fitu í sláturhúsum. Þessum afurðum er annars fargað.

,,Vonir okkar standa til að endurnýta alla þá fitu og olíu sem til fellur á Íslandi, bæði harða og mjúka. Það hafa verið gerðar nokkrar vel heppnaðar tilraunir við að keyra þetta á bifreiðum og nú stendur til að útvíkka það og gera kannanir í stærri skala sem taka munu til allrar lífrænnar úrgangsolíu sem fellur til á Íslandi,“ sagði Ívar Örn Lárusson, annar eigandi fyrirtækisins sem einnig er í eigu Arnórs Jónssonar, í fréttatilkynningu.

Helstu kostir þessa svokallaða lífdísils eru betri smureiginleikar sem gefur betri endingu véla. Þannig gengur lífdísil á óbreyttar vélar og ábyrgð bifreiðaframleiðenda  heldur sér. Einnig minnkar útblástur véla og þær menga þ.a.l. minna. ,,Þannig minnkar útblástur Íslendinga á gróðurhúsaloftegundum og með tilkomu koltvísýringskvóta mun notkun lífdísils bæta stöðu okkar til muna á bæði innlendum og erlendum vettvangi,“ sagði Ívar.

Unnið er að arðsemismati og þróun fullburða verksmiðju til að vinna verkefnið áfram í samvinnu við Orkuveitu Reykjavíkur og Háskólann í Reykjavík, en bæði fyrirtækin hafa komið að verkefninu frá upphafi. Einnig hefur Líforka, í samstarfi við iðnaðarráðuneytið unnið að afsetningu vörunnar  og  Nýsköpunarmiðstöð Íslands verið verkefninu innan handar á margvíslegan hátt . Lokamarkmiðið er að sögn Ívars að öll farartæki í eigu ríkis og borgar verði vistvæn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert