„Barnavagninn minn á ekki að þurfa að fara út á götu," stendur á miða sem Bílastæðasjóður hefur látið gera. Ætlunin er að festa miðann á bifreiðar sem loka gangstéttum fyrir foreldrum með barnavagn og öðrum gangandi vegfarendum.
Ökumenn hafa undanfarin ár lagt æ fleiri svæði undir bifreiðar sínar í Reykjavík. Víða má sjá bifreiðum lagt upp á gangstéttar og grasflötum en það skapar hættu fyrir gangandi vegfarendur sem þurfa oft á tíðum að fara út á götu til að komast leiðar sinnar. Þessi umgengni bílstjóra hefur meðal annars skapað hættu fyrir börn, að því er segir á vef framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar.
Stöðuverðir Bílastæðasjóðs og lögregluþjónar geta lagt stöðubrotsgjald á bifreiðar sem standa ólöglegar en vandinn er það viðamikill að ákveðið var að gefa út miða með vinsamlegum ábendingum í nokkrum útgáfum. Einn miðinn segir til um að hér hafi barn ekki komist leiðar sinnar á gangstéttinni. Annar að bifreið hafi hindrað mann í hjólastól og á honum stendur: Áttu erfitt með gang? Við líka!