Hyggst skila gögnunum eftir helgi

Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur
Húsnæði Orkuveitu Reykjavíkur mbl.is/Sverrir

Guðmundur Þóroddsson, fyrrverandi forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, hyggst skila eftir helgi gögnum, sem hann fjarlægði af skrifstofum OR skömmu áður en hann lét af störfum sem forstjóri í lok maí.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er hér um að ræða gögn sem tengjast stjórnarfundum OR tíu ár aftur í tímann. Þar á meðal eru viðskiptasamningar og trúnaðarupplýsingar, sem fyrirtækið telur brýnt að leynd hvíli yfir. Sömuleiðis er um að ræða fundargerðir frá sama tímabili.

Heimildir Morgunblaðsins herma að hvarf gagnanna, sem voru í mörgum kössum í skjalasafni Orkuveitunnar, hafi uppgötvast í byrjun júnímánaðar, þegar nálgast átti ákveðin gögn. Síðan hafi verið reynt að fá Guðmund til að skila gögnunum.

Taldi gögnin persónuleg skjöl

Guðmundur segist hafa tekið með sér af skrifstofu sinni möppur sem í voru gögn sem honum voru afhent á stjórnarfundum þegar hann hætti störfum. Hann hafi litið á þessi gögn sem sín persónulegu skjöl.

Guðmundur sagði í gærkvöld, þegar Morgunblaðið náði tali af honum: „Ég tók engin skjöl úr skjalasafni Orkuveitunnar. Þetta voru möppur sem ég geymdi á skrifstofu minni og í voru fundargögn sem ég hafði sem forstjóri fengið afhent á stjórnarfundum Orkuveitunnar. Ég leit á þessi gögn sem mín persónulegu skjöl.“

Skil ekki moldviðrið

Aðspurður hvernig hægt væri, sem forstjóri í starfi hjá hálfopinberu fyrirtæki, OR, að líta á viðskiptasamninga og trúnaðarskjöl sem einkaeign en ekki eign þess fyrirtækis sem hann starfaði hjá sagði Guðmundur: „Ég skil nú ekki moldviðrið sem búið er að þyrla upp vegna þessa máls. Ég hef átt í vinsamlegum viðræðum við Hjörleif Kvaran forstjóra um þetta og á ekki von á öðru en að fáist niðurstaða sem allir geta unað við.

Það er ekki rétt að reynt hafi verið að fá þessi gögn frá mér í meira en mánuð. Það hafa átt sér stað tvö samtöl um gögnin og ég hef aldrei neitað að afhenda þau. Síðast í dag fékk ég bréf frá lögfræðingi fyrirtækisins og ég mun skila þessum gögnum eftir helgi, þegar ég er aftur kominn í bæinn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert