Vel gekk að lenda Boeing 757-200 þotu sem flaug inn til lendingar á Keflavíkurflugvelli á einum hreyfli, en bilun kom upp í öðrum hreyfli vélarinnar nokkru fyrir lendingu. Um Icelandair þotu er að ræða og var hún að koma frá Amsterdam með 181 farþega.
Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að flugstjórinn hafi orðið var við bilunina nokkru fyrir lendingu. Samkvæmt vinnureglum drap hann í hreyflinum og kom inn til lendingar á öðrum hreyfli.
„Það gekk algerlega snurðulaust og mjög vel,“ segir Guðjón. Hann bendir á að ávallt sé mikill viðbúnaður á flugvellinum þegar vélar koma til lendingar á einum hreyfli, slíkt sé vinnuregla.
Aðspurður segir Guðjón að farþegarnir hafi orðið einskis varir þegar flugstjórinn slökkti á hreyflinum og verið rólegir.
Ekki liggur fyrir með nákvæmum hætti hvað bilaði í hreyflinum, en um vinstri hreyfil er að ræða. Málið verður rannsakað.