Plastprent hefur hafið framleiðslu á plastpokum og -filmu úr umhverfisvænu lífbrjótanlegu efni, Mater-Bi. Það er unnið úr maíssterkju og blandað með öðrum lífbrjótanlegum efnum svo eiginleikar framleiðslunnar verði sambærilegir og gerist í hefðbundnum plastefnum sem menn hafa þekkt fram að þessu.
Fram kemur í tilkynningu að Plastprent hafi sett sér það markmið að standa framarlega í umhverfismálum, enda sé flestum orðið ljóst að umhverfið skiptir alla máli.
„Það er þó ekki nóg að tala á umhverfisvænan hátt - það verður að láta verkin tala. Daglega fellur til mikið magn umbúða á íslenskum heimilum og ekki síður hjá fyrirtækjum landsins. Því er nauðsynlegt að umbúðirnar séu sem mest endurnýtanlegar, eða eyðist, í stað þess að þær safnist upp á urðunarstöðum eða úti í náttúrunni. Mater-Bi plastpokarnir og plastfilman frá Plastprent eru gædd þessum eiginleikum. Mater-Bi er lífbrjótanlegt efni og brotna niður á 10-45 dögum við jarðgerð, allt eftir því hvaða aðferð er beitt,“ segir í tilkynningu frá Plastprent.