Hlaup úr Grænalóni við Skeiðarárjökul hefur staðið yfir frá því á þriðjudag. Samkvæmt upplýsingum lögreglu stafar hvorki mannvirkjum né fólki hætta af hlaupinu sem er nú líkast til í rénun.
Leiðin inn í Núpsstaðaskóg lokaðist þegar hlaupið hófst og í fyrstu óttuðust menn að fólk væri fast í skóginum. Svo var ekki.
Síðast hljóp úr Grænalóni árið 2005, en það gerist á nokkurra ára fresti og stendur að jafnaði í þrjá til fimm daga. Algengt er að rennsli í þessum hlaupum nái 2.000 rúmmetrum á sekúndu. Súla sameinast Núpsá í Núpsvötnum. Eins og er sameinast árnar niður undir brú á hringveginum. Í hlaupum getur farvegur Súlu breyst og hún sameinast Núpsá mun ofar en hún gerir nú.