„Hlutirnir gerast mjög hratt, enda bílarnir á gríðarlegri ferð framan af en við höfum hlotið góða þjálfun í sérsveitinni hvernig á að snúa bílum og stöðva þá á sem vægastan hátt á réttum tímapunkti, þegar þeir hafa hægt á sér. Svo er ég með félaga í bílnum sem fór í gegnum þjálfunina með mér og það hjálpar mikið,“ segir Sveinn Ægir Árnason, liðsmaður sérsveitar ríkislögreglustjóra, en hann hefur tvívegis stöðvað bifreiðar í ofsaakstri með skömmu millibili. Fyrst jeppa á Vesturlandsveginum og síðan fólksbíl á Ásbraut í Hafnarfirði.
Í báðum tilvikum var um eftirför að ræða þar sem ökumenn virtu ítrekað að vettugi stöðvunarmerki lögreglu. Á Ásbraut var ökumaður sem sætti eftirför nálægt íbúðabyggð og því var mikil mildi að hættu var afstýrt.
Aðeins yfirvarðstjóri getur gefið heimild til slíkrar stöðvunar og þarf mikið að hafa gengið á svo henni sé beitt, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Ríkislögreglustjóri hefur gefið út verklagsreglur til lögreglumanna um hvernig þeir eigi að bera sig að við þessar aðstæður.
Stöðvunin á Ásbraut var mjög nærri íbúðabyggð. Því hefði börnum, sem voru að leik í grenndinni, geta verið bráð hætta búin ef ekki hefði tekist að stöðva bifreiðina í tæka tíð. „Í báðum tilfellum [stöðvun á Vesturlandsvegi og Ásbraut] var búið að reyna ítrekað að fá ökumann til að stoppa af sjálfsdáðum án árangurs. Við reynum að gera þetta á stað þar sem hraðinn er sem minnstur því það er útilokað að stöðva og snúa bíl á 160 kílómetra hraða því þá verður stórslys,“ segir Sveinn Ægir Árnason.