„Ég mun fara yfir þetta með starfsmönnunum við fyrsta tækifæri,“ segir Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis. Kvartað hefur verið til garðanna vegna atburðar sem sagður er hafa átt sér stað þegar ungmenni í sumarstarfi hjá kirkjugörðunum fengu á dögunum að skoða kirkju- og tengibyggingar í Fossvogi og þar á meðal líkhúsið, að því er Þórsteinn staðfestir.
Kvörtun sem görðunum barst mun hafa snúið að því að starfsmaður hafi sýnt ungmennum lík án þess þau hefðu verið undir það búin og hafi einhverjum brugðið við. Þórsteinn segir að viðkomandi starfsmaður sé í fríi og málið verði rætt við hann þegar hann snúi aftur til vinnu. „Hafi einhver tekið þetta nærri sér hörmum við það að sjálfsögðu,“ segir hann.