Spölur, rekstraraðili Hvalfjarðarganganna, hyggst afhenda Kristjáni L. Möller samgönguráðherra skýrslu í dag um kostnað og hönnun við tvöföldun ganganna undir fjörðinn. Tilefnið er tíu ára afmæli ganganna en þau voru opnuð formlega af Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, hinn 11. júlí 1998.
Frá þeim tíma hafa ríflega 14 milljónir ökutækja farið um göngin og meðaltalsumferð er um 5.500 bílar á sólarhring. Eitthvað hefur dregið úr umferðinni síðustu mánuði með hækkandi bensínverði en hún er samt sem áður langtum meiri en áætlanir gerðu ráð fyrir í fyrstu.
Göngin voru upphaflega hönnuð fyrir um fimm þúsund bíla á sólarhring en Spalarmenn telja að veruleg vandræði skapist ef umferðin fer yfir sex þúsund bíla. Tilraunaborunum í göngunum er lokið og að sögn Gísla Gíslasonar, stjórnarformanns Spalar ehf., lofa niðurstöðurnar mjög góðu. Samkvæmt fyrrnefndri skýrslu myndu ný göng, samhliða hinum eldri, kosta á bilinu 6,5 til 7,5 milljarða króna. Vonast Spölur til að göngin verði klár 2013-2014.