Erfiðara og dýrara er orðið fyrir verktaka að tryggja framkvæmdir en áður, sem hefur orðið til þess að hægja á framkvæmdum.
„Það er greinilega þyngri ferli nú en áður fyrir verktaka að fá verktryggingar,“ segir Ámundi Brynjólfsson, hjá mannvirkjaskrifstofu framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar.
„Við höfum fundið fyrir því að það tekur þá lengri tíma að fá þessar tryggingar. Í einhverjum tilfellum höfum við þurft að hafna verkbjóðanda, vegna þess að hann hefur ekki getað skilað inn verktryggingu,“ segir Ámundi.
Ef verktaki kemur til álita sem framkvæmdaraðili verks sem boðið hefur verið út hjá hinu opinbera, þarf hann að skila inn verktryggingu áður en verksamningur er gerður.
Ef verktaki verður gjaldþrota á samningstímanum eða uppfyllir ekki skyldur samningsins getur verkkaupinn sótt tryggingarféð hjá banka eða tryggingafélagi sem tryggir verkið.
Ámundi segir að stórir og stöndugir verktakar eigi enn nokkuð auðvelt með að tryggja framkvæmdir sínar, en smærri verktökum með minna á bak við sig reynist það erfiðara nú en áður.
„Þær bakábyrgðir sem verktakar geta sýnt fram á eru ekki þær sömu og þær voru,“ segir Sigurður Viðarsson, deildarstjóri fyrirtækjaþjónustu VÍS. Bak við tryggingarnar standi yfirleitt veð í fasteignum eða í lausafé verktakans.
Sigurður segir verktaka því ekki eins vænlega tryggingataka og áður. „Í þeim tilfellum sem bakábyrgðir eru ekki sterkar getur verið erfitt fyrir verktaka að fá verktryggingu.“