Fangi sem verið var að flytja af Litla-Hrauni, þar sem hann situr í gæsluvarðhaldi, í Hegningarhúsið við Skólavörðustíg, reyndi að flýja þegar hann fór út úr bifreiðinni sem flutti hann á milli staða. Flóttatilraunin mistókst þar sem hann var handsamaður innan við mínútu eftir að hann flúði, rétt við Hegningarhúsið.
Páll Egill Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir að maðurinn hafi tekið á rás þegar hann kom út úr bifreiðinni en fangaverðir hafi unnið hratt og örugglega og handtekið hann strax. Að sögn Páls er fanginn góðkunningi lögreglunnar en hann situr í gæsluvarðhaldi en ekki í einangrun þannig að engir rannsóknarhagsmunir voru í húfi. Að sögn Páls verður fanginn beittur agaviðurlögum fyrir flóttatilraunina.