Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hitti á miðvikudag hóp bandarískra áhrifamanna í byggingarlist, orkunýtingu og fjölmiðlun. Hitti hann fólkið við Vatnsdalsá, þar sem það var við veiðar, en umræðuefnið var baráttan gegn loftslagsbreytingum.
Meðal þeirra sem tóku þátt í viðræðunum var hinn heimsþekkti arkitekt William McDonough en hann hefur sérhæft sig í umhverfisvænum húsum, s.s. með því að leggja grasþökur ofan á háhýsi.
Samkvæmt frétt á vefsvæði forseta var m.a. rætt um hvernig framganga háskóla, rannsóknarstofnana og fyrirtækja í Bandaríkjunum muni gera nýjum valdhöfum í Washington kleift að skipa Bandaríkjunum á skömmum tíma í forystu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.