Hrafn verpir í Surtsey

Leiðangursmennirnir. Mynd fengin af vef NÍ.
Leiðangursmennirnir. Mynd fengin af vef NÍ. mynd/Sigurður H. Magnússon

Það kom leiðangursmönnum á óvart, sem fóru í árlegan leiðangur líffræðinga til Surtseyjar dagana 7. – 10. júlí sl., að hrafn er tekinn að verpa í eynni. Að þessu sinni voru fimm sérfræðingar Náttúrufræðistofnunar Íslands í leiðangrinum og einn frá Landbúnaðarháskóla Íslands.  

Auk þess voru þrír kvikmyndargerðarmenn á vegum kanadíska ríkissjónvarpsins með í för, segir í frétt á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. 

Það sem vakti mesta athygli leiðangursmanna var að hrafn er tekinn að verpa í Surtsey. Þar voru hrafnshjón með þrjá fleyga unga. Laupur þeirra fannst í stóra gígnum á vesturhluta eyjarinnar þar sem hrafnar hafa áður byggt laupa en ekki orpið svo vitað sé.

Við laupinn og í gígnum voru mikil ummerki eftir krumma og var greinilegt að hann hafði borið í unga sína egg fýls og ritu og einnig máfsunga. Sýnir þetta að æti er orðið nægilegt í Surtsey til bera uppi afræningja eins og hrafninn sem trónir nú efst í fæðukeðju eyjarinnar. Hrafninn er fjórtánda fuglategundin og fimmti landfuglinn sem tekur að verpa í Surtsey.  

Gróður mældur og mosa safnað  

Í ferðinni var landnám háplöntutegunda kannað, gróður mældur í föstum rannsóknareitum og jarðvegssýni tekin. Í reitunum var einnig mæld ljóstillífun plantna og jarðvegsöndun. Mosum var safnað um alla eyjuna og könnun gerð á sveppum, en mjög langt er síðan að hugað hefur verið þar að þessum hópum lífvera í eyjunni.  

Fuglalíf var kannað og smádýrum safnað bæði í föstum reitum og vítt og breitt um eyjuna.

Nánar um leiðangurinn hér. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert