Pakkaferðir innanlands hafa hækkað um rúm 37% milli ára. Þá hafa flugfargjöld til útlanda hækkað um tæp 22%. Þetta má sjá séu vísitölur á vef Hagstofunnar frá júní 2007 og 2008 bornar saman. Að sögn Guðrúnar R. Jónsdóttur, deildarstjóra vísitöludeildar Hagstofunnar, má skýra hækkanirnar með stórauknum eldsneytiskostnaði ásamt öðrum kostnaðarhækkunum.
Pakkaferðir til útlanda hafa hinsvegar lækkað um rúmt 1%. Spurð hvernig standi á því segir Guðrún að sl. haust og vetur hafi vetrarferðir lækkað töluvert sökum þess hve gengið var hagstætt.