Frá árinu 2006 hefur Landsnet unnið með Landgræðslu ríkisins að uppgræðslu og stöðvun jarðvegseyðingar í nágrenni háspennulína á afréttinum sunnan Langjökuls. Ákveðið hefur verið að í sumar verði kröftunum beint að brýnum verkefnum annars vegar við Tjaldafell og hins vegar að nýju svæði á móts við vegamót línuvegar og Kaldadalsvegar.
Uppgræðslustarf sumarsins hófst í síðustu viku þegar unglingavinnuflokkur Landsnets vann undir verkstjórn Landgræðslunnar að handsáningu í rofabörð og á svæðum, sem eru erfið yfirferðar á vélum. „Í kjölfar þessara vösku ungmenna verður áburði og fræi sáð á svæði sem auðveldara er að komast um með dráttarvélum. Í sumar er áætlað að áburðardreifing og sáning fari fram á um 240 hekturum á þessu svæði," samkvæmt tilkynningu.
Í upphafi níunda áratugarins var svonefnd Sultartangalína 1 byggð á þessu svæði og línuvegur lagður meðfram henni. Slóðinn hefur frá upphafi verið nokkuð fjölfarin á sumrin, enda opnaðist með henni leið með einstaklega fagurri fjallasýn í björtu veðri. Þetta svæði er hins vegar hálent og mjög illa farið vegna uppblásturs og gróðureyðingar.
Markmið samstarfsverkefnis Landsnets og Landgræðslu ríkisins er að skapa varanlega gróðurþekju á ákveðnum svæðum sunnan Langjökuls, stöðva sandfok og aðra jarðvegseyðingu og styrkja rýr gróðurlendi sem eiga í vök að verjast fyrir eyðingaröflunum. Verkaskiptingu er þannig háttað að Landgræðsla ríkisins leggur til fagþekkingu sína og verkstýrir framkvæmdinni en Landsnet kostar aðföng vegna hennar, að því er segir í tilkynningu.