Bautasteinn í minningu Einars Odds Kristjánssonar alþingismanns verður afhjúpaður við hátíðlega athöfn sem hefst á Flateyri klukkan eitt í dag. Steinninn er staðsettur á Sólbakka og eftir afhjúpun hans munu gestir hlýða á tónleika með þeim Kristni Sigmundssyni óperusöngvara og Jónasi Ingimundarsyni píanóleikara.
Geir H. Haarde forsætisráðherra mun flytja stutta tölu um menningu og landsbyggðina, við athöfnina en á meðal viðstaddra verða einnig Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín Guðmundsdóttir menntamálaráðherra, Kristján Möller samgönguráðherra og Einar Kristinn Guðfinnsson sjávarútvegsráðherra. Þá verða helstu forsvarsmenn atvinnulífs og verkalýðshreyfingar viðstaddir auk Ásmundar Stefánssonar, fyrrverandi forseta ASÍ, og Elínar Torfadóttir, ekkju Guðmundar J. Guðmundssonar.
Einar Oddur var formaður Vinnuveitendasambands Íslands þegar þjóðarsáttarsamningarnir frægu voru gerðir. Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands standa í sameiningu að þessu verki og er þetta þakkarvottur þeirra til Einars Odds fyrir hans mikla og góða starf.