Framtíð REI í biðstöðu fram á haust

Framtíð Reykjavík Energy Invest, útrásararms Orkuveitu Reykjavíkur, hefur verið á reiki frá ársbyrjun og samstöðuleysi ríkt meðal borgarstjórnarflokkanna um næsta skref í rekstrinum.

Um síðustu mánaðamót sögðu fjórir lykilstarfsmanna REI upp störfum og báru því við ekki væri vinnufriður til að sinna verkefnum vegna ósættis um framhald starfseminnar.

Minnihlutinn í borgarstjórn hefur þá stefnu að borgin eigi, með lágmarksáhættu, að nýta sér þau tækifæri sem OR býðst með REI til hagsbóta fyrir Reykvíkinga. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur hinsvegar sagst vera á þeirri skoðun að stjórnmálamenn eigi ekki að standa í áhætturekstri með peninga skattgreiðenda í öðrum löndum og því eigi OR ekki að veita meira fé til útrásarverkefna REI heldur selja þau frá sér.

Á sama tíma berast þó þær fréttir að dótturfyrirtækið Envent hafi nýhlotið rannsóknar- og nytjaleyfi á Filippseyjum þar sem til stendur að reisa orkuver, en það mun krefjast viðbótarfjármagns. Því er ekki furða að margir spyrji sig hvort algjört stefnuleysi ríki um rekstur REI.

Að sögn Kjartans Magnússonar, stjórnarformanns REI, er nú verið að leita annarra leiða til að halda áfram útrásinni erlendis án þess að almannafé sé veitt í verkefni sem í eðli sínu séu áhættusöm.

„Okkar fjárhagslega skuldbinding á Filippseyjum kom til í september síðastliðnum og við getum ekki hlaupist undan henni, en þetta er ekki mjög há upphæð, um 800.000 dollarar. Sú vinna er að fara af stað núna og ef þetta verkefni gengur vel ættum við að hafa nægan tíma til að skoða hvernig við getum haldið því áfram með utanaðkomandi fjármagni“.

Kjartan segir að miklir möguleikar liggi í þeim verkefnum sem þegar hefur verið komið á fót, en þau séu jafnframt fjárfrek. Á meðan framtíð REI sé óráðin verði samt að halda verkefnunum áfram til að skaða ekki verðmæti þeirra, þrátt fyrir þá stefnu Sjálfstæðisflokksins að losa beri OR undan útrásarstarfseminni.

Niðurstöður stefnumótunar liggi fyrir í haust

Í sumar stendur yfir mikil stefnumótunarvinna hjá stjórn REI og er stefnt að því að ákvörðun um framhald útrásarinnar liggi fyrir í haust. Að sögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins, gengur starfið vel og segist hún vonast til að flokkarnir í borgarstjórn Reykjavíkur komist að niðurstöðu sem verði farsæl fyrir fyrirtækið og borgarbúa. „Ég veit ekki hver endanleg ákvörðun verður, en hún mun skýra með nákvæmum hætti hvað við ætlum að gera í framhaldinu,“ segir Hanna Birna.

„Okkar stefna er alveg skýr, við viljum lágmarka þá áhættu sem skattgreiðendur í Reykjavík bera af þessu verkefni og við viljum að Orkuveitan einbeiti sér að þeim verkefnum sem hún á að sinna, þ.e. sinni kjarnastarfsemi í þjónustu við borgarbúa.“ Á meðan sé þó nauðsynlegt að því starfi sem unnið hefur verið sé haldið við. „Á meðan við erum að skoða þetta verða þau verkefni sem þegar eru hafin að fá að halda áfram. Orkuveitan er ekki að leggja nýtt áhættufjármagn í þetta, það er bara verið að halda starfseminni gangandi í þeim farvegi sem hún var í til að tryggja að möguleg verðmæti glatist ekki.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert