Talsverður viðbúnaður var á Reykjavíkurflugvelli á tíunda tímanum í morgun þegar lítil flugvél, af Cessna gerð, kom inn til lendingar á einum hreyfli. Að sögn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gekk lendingin vel. Einn maður var í flugvélinni.
Að sögn SHS slokknaði í öðrum hreyfli vélarinnar og lét flugmaður flugstjórn vita. Þegar slíkt gerist er ávallt mikill viðbúnaður, en sem fyrr segir lenti vélin heilu á höldnu á vellinum.