Óskiljanleg töf á afhendingu gagna

Atli Gísla­son, full­trúi Vinstri grænna í sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­nefnd, hef­ur sent for­seta og for­sæt­is­nefnd Alþing­is bréf vegna þeirra tafa sem orðið hafa á  því að út­vega nefnd­ar­mönn­um gögn varðandi svo­kallað mat­væla­frum­varp. Seg­ir Atli töf­ina óskilj­an­lega og óafsak­an­lega.

Þá seg­ir að um­rædd gögn hafi legið að baki þeim  skiln­ingi stjórn­valda að falla þyrfti frá um­sam­inni undaþágu Íslands sam­kvæmt EFTA samn­ingn­um varðandi búfjáraf­urðir og þau hefðu átt að liggja fyr­ir nefnd­ar­mönn­um sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­nefnd við upp­haf á um­fjöll­un nefnd­ar­inn­ar um málið.

Bréf Atla fylg­ir í heild sinni hér á eft­ir:

Laug­um, Reykja­dal 12. júlí 2008

Sturla Böðvars­son, for­seti Alþing­is

Arn­björg Sveins­dótt­ir, formaður sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­nefnd­ar

For­sæt­is­nefnd Alþing­is

Efni: Vegna frum­varps um end­ur­skoðun á und­anþágum frá I. kafla I. viðauka við EES-samn­ing­inn (EES-regl­ur, breyt­ing ým­issa laga)

Í bréfi dag­settu þann 16. maí sl. krafðist ég þess sem nefnd­armaður í sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­nefnd að öll gögn ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins og sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðuneyt­is­ins um fer­il máls­ins frá upp­hafi til enda viðræðna við ESB yrðu lögð fyr­ir fund nefnd­ar­inn­ar þann 19. maí. Var þessi krafa ít­rek­un á fyrri beiðnum sama efn­is á fund­um nefnd­ar­inn­ar. Send var ít­rek­un þess efn­is þann 12. júní til for­manns nefnd­ar­inn­ar, ut­an­rík­is­s­ráðherra, sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðherra sem fylgt var eft­ir með enn einni ít­rek­un í formi tölvu­pósts þann 24. júní.

Svör voru boðuð af for­manni sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­nefnd­ar vik­una 16.- 23. júní ef marka má frétt Frétta­blaðsins 16. júní sl. Enn ból­ar ekki á þess­um gögn­um og er það al­gjör­lega óviðun­andi. Gögn þess efn­is er staðfestu þann skiln­ing stjórn­valda að falla þurfti frá um­sam­inni undaþágu Íslands sam­kvæmt EFTA samn­ingn­um varðandi búfjáraf­urðir hefðu átt að liggja fyr­ir nefnd­ar­mönn­um sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­nefnd við upp­haf á um­fjöll­un nefnd­ar­inn­ar um málið.

Nú síðast í grein í 24­stund­um þann 10. júlí full­yrðir formaður sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðar­nefnd­ar að „Evr­ópu­sam­bandið set­ur það skil­yrði fyr­ir yf­ir­töku á nýju mat­væla­lög­gjöf­inni að sú und­anþága sem við höf­um búið við, verði felld niður." Til þess að full­yrðing Arn­bjarg­ar telj­ist mark­tæk verður hún að búa yfir gögn­um sem und­ir­ritaður hef­ur margsinn­is kraf­ist. Ann­ars verður vart séð hvernig slík full­yrðing geti staðist. Þær taf­ir sem hafa orðið á að þau gögn sem und­ir­ritaður hef­ur beðið um fela í sér al­var­leg brot á rétti und­ir­ritaðs sem þing­manns að fá upp­lýs­ing­ar um mál sem ligg­ur fyr­ir Alþingi til meðferðar.

Til­vitnuð bréf og önn­ur gögn fylgja tölvu­pósti þess­um.

Virðing­ar­fyllst,

Atli Gísla­son

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert