Vesturbærinn og miðbærinn eru vinsælustu hverfi borgarinnar þegar kemur að búsetu. Það kemur fram í könnun á húsnæðis- og búsetuóskum Reykvíkinga 2007 sem unnin var fyrir skipulags- og byggingasvið Reykjavíkurborgar. Þetta eru sömu niðurstöður og árið 2003 en vinsældir miðbæjarins hafa þó ekki vaxið mikið miðað við aukið framboð nýs húsnæðis þar.
Þau hverfi sem hafa mest sótt á síðan 2003 eru Árbær/Grafarvogur, Kjalarnes og Hlíðarnar. Vatnsmýrin og Úlfarsárdalur eru vinsælustu nýbyggingarsvæðin, en t.a.m. nefndu aðeins 4% aðspurðra Örfirisey.
Þegar spurt var hvernig húsnæði vantar helst í borgina svöruðu flestir, eða um fjórðungur, lág fjölbýlishús, tæpur fimmtungur nefndi hæðir og því næst komu einbýlishús og raðhús. 47% voru á móti fjölgun háhýsa.