Byggðasafnið verðlaunað

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Inga Ólafsdóttir, formaður menningarmálanefndar Ísafjarðar, …
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, Inga Ólafsdóttir, formaður menningarmálanefndar Ísafjarðar, og Jón Sigurpálsson, safnastjóri Byggasafns Vestfjarða. mbl.is/hag

Byggðasafn Vestfjarða hlaut í dag Íslensku safnaverðlaunin sem forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, afhenti á Bessastöðum í dag. Íslensku safnaverðlaunin eru veitt annað hvert ár því safni sem þykir hafa skarað fram úr. Þau voru fyrst afhent árið 2000.

Jón Sigurpálsson, safnstjóri Byggðasafns Vestfjarða, veitti verðlaunum viðtöku fyrir hönd safnsins. Auk byggðasafnsins voru Minjasafnið á Akureyri og Safnasafnið á Svalbarðsströnd tilnefnd til verðlaunanna.

Í tilkynningu frá skrifstofu forseta kemur fram að Byggðasafn Vestfjarða á Ísafirði sé einstakt safn í sinni röð. Sýningarsvæði þess sé í Neðstakaupstað þar sem standi fjögur hús frá 18. öld, Tjöruhúsið, Krambúð og Faktorshúsið og Turnhúsið, sem saman myndi elstu heild húsa á Íslandi. Þá segir að Byggðasafn Vestfjarða hafi staðið að varðveislu þessara merkilegu húsa með þeim hætti að til fyrirmyndar er og í Neðstakaupstað hefur tekist að skapa andrúmsloft sem vitnar um atvinnuhætti fyrri tíma.

Byggðasafn Vestfjarða leggur áherslu á að safna bátum og bátavélum og hefur farið þá leið í varðveislu báta að halda þeim sjófærum og stuðla þannig að því að viðhalda verkþekkingu við bátasmíðar. Safnið hefur umsjón með elsta slipp landsins þar sem unnt er að standa að viðhaldi báta.


 

Verðlaunin voru afhent á Bessastöðum í dag.
Verðlaunin voru afhent á Bessastöðum í dag. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert