Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, veltir því upp í pistli á heimasíðu sinni hvort Íslendingar eigi að láta á það reyna tengjast Evrópusambandinu eftir evruleið fremur en aðildarleið.
Björn bendir á að Íslendingar hafi valið þann kost, að tengjast ESB eftir tveimur meginleiðum: með EES-samningnum og Schengen-samkomulaginu.
„Hvernig væri að láta reyna á það á markvissan hátt, hvort unnt sé að setja þriðju stoðina undir þetta samstarf, það er um evruna? Engin lagarök eru gegn því, að það verði gert. Mun meiri pólitísk sátt yrði um þá leið en aðildarleiðina. Evruleiðin kann auk þess að hafa meiri hljómgrunn í Brussel en aðildarleiðin,“ segir Björn.
Fellur ekki við Evrópustefnu stjórnvalda
Hann segir að ákall stórkaupmanna um að íslensk stjórnvöld hefji aðildarviðræður við Evrópusambandið falli ekki við stefnu ríkisstjórnarinnar í Evrópumálum.
„Áður en ríkisstjórnin getur brugðist við því, þarf að semja nýjan stjórnarsáttmála, en forsætisráðherra hefur margítrekað, að hann hafi ekki hug á að breyta um stefnu í Evrópumálum,“ segir Björn.
Hann segir ennfremur að sjálfstæðismenn muni efna til landsfundar á næsta ári og að boðað hafi verið, að þar verði rætt um Evrópustefnu flokksins.
„Kjörtímabilið rennur út árið 2011. Yrði stjórnarskrá breytt, ríkisstjórn fengi umboð þings og þjóðar til ESB viðræðna og niðurstaða þeirra yrði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu, þyrfti enn langan tíma til að laga ísenskt efnahagslíf að evru-kröfum,“ segir Björn.
Skorað á stjórnvöld
Félag íslenskra stórkaupmanna lýsir miklum áhyggjum af því ástandi sem skapast hefur í efnahagslífi Íslands og krefst aðgerða af hálfu stjórnvalda strax. Þetta kom fram í opnu bréfi samtakanna til Geirs H. Haarde forsætisráðherra og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur utanríkisráðherra, sem birt var sem auglýsing í Morgunblaðinu í gær.
Í bréfinu segir m.a. stjórn samtakanna styðji áskorun efnahagsnefndar FÍS til ríkisstjórnar Íslands um að hún beiti sér fyrir því að hafnar verði aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Þá
segir að þótt skoðanir séu skiptar á meðal félagsmanna um aðild að
Evrópusambandinu telji stjórn þess rétt að hefja könnunarviðræður til
að fá fram hvaða valkostum þjóðin standi frammi fyrir varðandi
hugsanlega inngöngu í sambandið.