Mikil óánægja er nú meðal um 300 farþega IcelandExpress sem biðu á Íslandi og í Billund í Danmörku eftir flugi í gær og í nótt en fluginu seinkaði verulega vegna bilunar. Vélin átti upphaflega að fara frá Íslandi um miðjan dag í gær en farþegar komust ekki á leiðarenda fyrr en í morgun.
Vélin átti upphaflega að fara frá Íslandi klukkan 15:30 í gær en brottför var þá seinkað vegna bilunarinnar. Vélin fór síðan í loftið um klukkan ellefu í gærkvöldi en eftir um hálftíma flug var henni snúið við eftir að bilunarinnar varð aftur vart. Farþegar vélarinnar héldu loks héðan til Danmerkur klukkan ellefu í morgun.
Um 150 farþegar áttu flug með vélinni héðan til Danmerkur og álíka margir biðu í Billund. Vélin átti að fara frá Billund um klukkan ellefu í gærkvöldi en Lára Ómarsdóttir, upplýsingafulltrúi IcelandExpress, segir að legið hafi fyrir fyrr um daginn að seinkun yrði á brottför þaðan. Þegar vélin hafi verið farin í loftið frá Íslandi hafi farþegum í Danmörku hins vegar verið sagt það og margir hafi þá tékkað sig inn. Þeir hafi síðan þurft að bíða í flugstöðinni í nótt þar sem flugvélinni var snúið við. Þeir farþegar sem biðu í Billund komust áleiðis til Íslands skömmu fyrir hádegi í dag.
Lára segir að bilun hafi komið upp í umræddri flugvél í fyrradag en að illa hafi gengið að fá varahluti í vélina. Ekki hafi heldur gengið að fá leiguflugvél til að flytja fólkið á milli landa. Þá hafi gengið illa að finna hótel fyrir farþega, bæði þá sem biðu hér á landi og í Billund. Þeir hafi þó fengið mat og dýnur til að liggja á.
Þá segir hún forsvarsmönnum IcelandExpress þykja mjög leitt hvernig þetta mál þróaðist en allt hafi verið gert til að koma farþegum sem fyrst á áfangastað og draga sem mest úr óþægindum þeirra.