Ærnar með gemsa og senda SMS

Húsavíkurkind með gemsann um hálsinn.
Húsavíkurkind með gemsann um hálsinn.

Óvenjuleg rannsókn fer nú fram á ám í Húsavík á Ströndum. Hefur staðsetningarbúnaði og GSM-sendi verið komið fyrir á þrettán ám og sendir búnaðurinn SMS daglega með upplýsingum um staðsetningu. Er tilgangurinn að rannsaka tengsl kinda á frjálsri sumarbeit. 

Um er að ræða framhald á rannsókn, sem gerð var árin 2005-6 á ættartengslum sauðfjár. Fram kemur á vefnum Ströndum.is, að það var meistaraprófsverkefni Hafdísar Sturlaugsdóttur í Húsavík við Landbúnaðarháskóla Íslands. Framhaldsrannsóknirnar eru á vegum skólans en Náttúrustofa Vestfjarða er samstarfsaðili.

Að sögn Matthíasar Lýðssonar hjá Náttúrustofu Vestfjarða er tilgangurinn  að kanna hvort skyldar ær haldi saman í frjálsri beit. Þetta hafi nokkuð verðið skoðað erlendis en þar þekkist frjáls beit sauðfjár hins vegar varla heldur er fénu haldið í lokuðum beitarhólfum.  

Ærnar þrettán eru í þremur ættarhópum. Þær bera hálskraga með GPS staðsetningabúnaði og sendi. Hver kragi sendir frá sér eitt SMS á dag með staðsetningum á þriggja tíma fresti eða 8 staðsetningar í hverju SMS skeyti. Ef ærin er kyrr í þrjá tíma sendir kraginn frá sér aðvörun um að dýrið sé hugsanlega veikt eða dautt.

Matthías segir feikimiklar upplýsingar berist með þessum hætti en ekki verði byrjað að vinna úr þeim fyrr en í haust og vetur. Hins vegar hafi fyrri rannsóknir bent til þess, að skyldar kindur þekkist umfram aðrar kindur í hjörðinni og þau tengsl haldist.

Hægt er að fylgjast með hve mikið ærnar færa sig innan sólarhrings, hvort þær eru mikið á ferðinni á beitilandinu, hvort veður skipti máli og einnig hvort ær úr sömu fjölskyldu séu á sama svæði. Fram kemur á Ströndum.is, að kragarnir nái að senda frá sér skeyti flesta daga en annars bíður búnaðurinn þar til ærin kemst næst í GSM-samband. Hins vegar hefur slíkt samband batnað til muna á Ströndum að undanförnu. 

Búnaðurinn er í eigu Náttúrustofu Austurlands og Landbúnaðarháskólans. Matthías segir, að til hafi staðið á síðasta ári að setja hálskragana á hreindýrskýr til að kanna burðarstöðvar þeirra. Þau áform hafi hins vegar ekki gengið eftir vegna þess að deyfibyssa, sem mjög komst til umræðu vegna bjarndýrsheimsókna fyrr í sumar, barst ekki til landsins í tæka tíð. 

Strandir.is 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert