Gátu ekki sótt veikan mann

Samband var haft við Landhelgisgæslu Íslands vegna karlmanns sem lést um borð í skemmtiferðaskipinu Aurora aðfaranótt sl. fimmtudags. Maðurinn var mikið veikur og óskað eftir þyrlu til að sækja hann. Skipið var þá um 350 mílur frá landi og Gæslan gat ekki orðið við beiðninni.

„Okkar vél fer ekki miklu lengra en 250 mílur en það er aðeins breytilegt eftir veðri og vindum,“ segir Halldór Nellett, framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Gæslunnar. „Við gáfum skipstjóranum þau skilaboð að hafa samband þegar skipið kæmi nær landi. En við heyrðum ekkert meira í honum.“ Engu að síður voru menn Gæslunnar í viðbragðsstöðu og búnir undir að fara að ystu mörkum.

Skemmtiferðaskipið kom að landi um miðjan dag á fimmtudag og bárust fregnir af því að grunur léki á að um morðmál væri að ræða. Sá orðrómur var hins vegar fljótlega kveðinn niður.

Eldsneytisslöngur ekki komnar

Spurður hvort ekki hafi verið hægt að komast að skipinu með öðrum leiðum, segir Halldór svo ekki vera. „Það var ekkert skip þarna. Eftir að varnarliðið fór af landi brott höfum við engan kost á því að fara svona langt út.“

Við endurbætur á varðskipum Gæslunnar var ráðgert að koma upp sérstökum búnaði svo þyrlur gætu komið að þeim og tekið eldsneyti á lofti. Þegar búnaðurinn var kynntur átti að vera stutt í að hann yrði til taks. Hann hefur hins vegar ekki enn verið tekinn í notkun. „Afgreiðslufrestur á sérstökum slöngum var miklu lengri en við bjuggumst við. Það var búið að segja okkur að þær kæmu á örfáum vikum en ég veit ekki hversu marga mánuði við erum búnir að bíða. Mér skilst þó að þær séu á leiðinni og þá förum við strax í að æfa notkun á búnaðinum. Þegar hann er kominn í notkun getum við sent varðskip á fullri ferð út, eða nýtt hann ef þau eru úti.“

Eina þyrlan sem hefur búnað til að taka eldsneyti á lofti enn sem komið er er TF-LIF.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert