Hjólaði á bíl

Mbl.is/Friðrik Tryggvason

Betur fór en á horfðist þegar sjö ára drengur hjólaði á bifreið á Akureyri í dag. Æskilegt er að grípa til aðgerða á staðnum þar sem óhappið átti sér stað, segir lögreglan.

Atvikið átti sér stað þar sem göngustígur mætir götu, sunnan við gatnamót Þórunnar- og Þingvallastrætis.

Sökum þétts gróðurs þar sem stígurinn kemur út á götuna geta ökumenn sem ætla að beygja á gatnamótunum ekki séð inn á stíginn og eins geta vegfarendur á stígnum ekki séð út á götuna áður en þangað er komið.

Litli drengurinn var á talsverðri ferð þegar hann kom út á götuna og náði ekki að stoppa sig af þegar hann varð var við bílinn.

Mikil mildi má teljast að ökumaðurinn var á lítilli ferð og með athyglisgáfuna í lagi þegar drengurinn skaust út á götuna. Ökumaðurinn snögghemlaði en drengurinn keyrði utan í bílinn.

Hann hlaut skrámur á andliti og marðist lítillega á öxl en slapp að öðru leyti með skrekkinn.

Lögreglan á Akureyri sagði þetta ekki vera í fyrsta sinn sem óhapp ætti sér stað þarna, aðstæður væru ákaflega varasamar.  Sagði hún að fyrirhugað væri að ræða við framkvæmdadeild bæjarins um úrbætur. Nauðsynlegt væri að grípa til einhverra aðgerða áður en slæmt slys yrði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert