Kríuvarp er hrunið bæði við Norðurkot í Sandgerði og við Ásgarð á Garðskaga. Þetta kemur fram á fréttavef Víkurfrétta í dag og segir þar að krían virðist ekki finna æti eftir að breytingar urðu í náttúrunni í byrjun mánaðarins.
Haft er eftir Gunnari Þór Hallgrímssyni, líffræðingi hjá Náttúrustofu Reykjaness, að kríuvarpið hafi byrjað með krafti í ár. Varpið var bæði mikið og hófst á réttum tíma. Hins vegar urðu breytingar í náttúrunni nú í byrjun júlí og krían virðist ekki finna æti, sem er að uppistöðu sandsíli.
Gunnar Þór segist einnig taka eftir breyttri hegðun sílamávs, sem styðji þær upplýsingar að varpið sé að bregðast í ár. Mikið sé af mávi í heiðinni en það eigi hins vegar eftir að koma í ljós hvort ungar nái því að verða fleygir. Lítið sést af dauðum fugli en það kann að skýrast af því að ungar séu étnir.