„Er náttúrulega bara bilun“

Benedikt ásamt landsliðinu í sjósundi. Hópurinn er nú staddur í …
Benedikt ásamt landsliðinu í sjósundi. Hópurinn er nú staddur í Dover á Englandi og vonast til að geta synt yfir Ermarsundið í vikunni. Myndin er fengin af vef Ermasundsverkefnisins.

Benedikt Hjartarson sundmaður vonast til að geta synt yfir Ermarsundið á morgun, en hann hefur beðið átekta, ásamt landsliðinu í sjósundi, í Dover á Englandi frá því í síðustu viku. Í dag var ekki óhætt að stinga sér til sunds en útlit er fyrir að aðstæður verði góðar í fyrramálið.

„Veðurspáin er þannig að það eru langmestur líkur á því að við förum í fyrramálið. Þá leggjum við sennilega af stað um sjö leytið,“ segir Benedikt í samtali við mbl.is.

Hann bendir á að skipstjórinn sem hópurinn ferðist með spái mikið í hafstraumana og það sé hann sem gefi mönnum grænt ljós hvort óhætt sé að fara í sjóinn eður ei. Hann telji líklegast að morgundagurinn verði góður „en við eigum eftir að fá kallið frá honum,“ segir Benedikt.

Hann vonast til að ljúka sundinu á 14 til 16 klukkustundum. „Ég yrði mjög ánægður með það.“  

En þurfa menn ekki að vera örlítið brjálaðir til að leggja í svona sund? „Þetta er náttúrulega bara bilun og ekkert annað,“ segir Benedikt og hlær. Hann bætir við að þetta sé fyrst og fremst skemmtilegt, og ekki skemmi fyrir ef sjórinn sé líka brjálaður.

Lærði sína lexíu

Aðspurður segir Benedikt að hann sé í mjög góðri æfingu og sundformið sé einnig mjög gott.  Hann segist hafa náð að fækka sundtökunum um 20% og hugi vel að mataræðinu.

„Það sem eru öðruvísi við mig núna heldur en í fyrra er að þá datt mér aldrei í hug að ég gæti hætt. Það voru allir aðrir sem myndu gefast upp, en mér datt aldrei í hug að það kæmi nokkurn tíma fyrir mig,“ segir Benedikt og bætir við að hann hafi lært sína lexíu. Hann viti á núna að hann geti hætt. „Það er það eina sem er að trufla mig.“

Ef Benedikt kemst ekki á morgun þá hefur hann tíma til 18. júlí að synda yfir sundið.

Daginn eftir að Benedikt lýkur sínu sundi ætlar landsliðið í sjósundi að synda boðsund yfir Ermarsund og til baka. Þetta eru átta sundmenn og margir þeirra eru fyrrverandi landsliðsmenn í keppnissundi.

Hægt verður hægt að fylgjast með leiðangrinum í beinni útsendingu á vef sundsins. Síðan verður stöðugt uppfærð með texta og myndum og síðast en ekki síst verður GPS staðsetning sundsins sýnd á myndrænan hátt með nýjum netbúnaði þannig að hægt verður að fylgjast með hvernig sundið gengur.

Sjá nánar á vef sundsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert