Hverfagæsla í Kópavogi verður boðin út á næstu dögum en gerð útboðsgagna hófst í gær, að sögn Þórs Jónssonar, upplýsingafulltrúa Kópavogsbæjar.
Bæjarráð Kópavogs samþykkti í síðustu viku tillögu Gunnars I. Birgissonar bæjarstjóra um að hverfagæsla í bænum verði boðin út til reynslu til eins árs. Það er gert til að sporna gegn innbrotum og skemmdarverkum. Tillagan var samþykkt með þremur atkvæðum gegn einu og einn sat hjá.
Þór sagði að Kópavogsbær hafi fyrirmyndina frá Seltjarnarnesi. Þar var stofnað til tilraunaverkefnis í samvinnu við lögreglu og dómsmálaráðuneyti 2005. Þór sagði að bæjaryfirvöld í Kópavogi hafi ekki rætt beint við dómsmálaráðuneyti eða lögreglu við undirbúning gæslunnar. Hins vegar hafi þau verið í sambandi við lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins því þau telji að dregið hafi úr nærþjónustu og eins hafi þau gagnrýnt að lögreglustöðin í Kópavogi sé nú lokuð á nóttinni og um helgar. Hverfagæslunni er ætlað að hafa fælingarmátt en ekki að koma í stað löggæslu.
„Það er enn lögð áhersla á nærþjónustu lögreglunnar og að lögreglustöðin verði opin allan sólarhringinn alla daga, þótt gripið sé til þessa ráðs til reynslu,“ sagði Þór.
„Að mínu frumkvæði er nú hafin endurskoðun á lögreglulögum. Eitt af því, sem þar er skoðað er inntak lögreglumannsstarfsins. Ég tel, að skýra þurfi inntak þess betur en áður í lögum, meðal annars með vísan til aukins einkaframtaks á sviði öryggisgæslu í þágu borgaranna. Jafnframt þarf að huga að löggjöf um einkafyrirtæki á þessu sviði, hvort henni skuli breytt. Loks skipta menntun og þjálfun einnig máli í þessu samhengi.