Dynur þyrluvængja truflaði óvænt öræfakyrrðina í Þórsmörk í síðustu viku. Tvær þyrlur lentu þá með skömmu millibili nálægt tjaldstæðinu við Bása og eins renndu þar að tveir stórir jeppar hlaðnir veisluföngum. Var annar þeirra merktur veiðiþjónustunni Lax-á.
Við vorum þarna í okkar litla kúlutjaldi og nutum kyrrðarinnar þegar við heyrðum þyrludyn og þyrla settist skammt frá okkur. Svo komu tveir stórir jeppar og þá önnur þyrla sem settist við hliðina á hinni,“ sagði María Gunnarsdóttir. Hún var að enda fjallaferð í Þórsmörk ásamt manni sínum.
María sagði að í jeppunum hafi verið starfsmenn Lax-ár og farþegarnir í þyrlunum hafi verið rússneskir veiðimenn sem höfðu verið hér í stangveiði. María hafði eftir starfsmanni Lax-ár að Rússarnir hafi m.a. lent á toppi Heklu og skálað þar fyrir vel heppnaðri Íslandsferð. Einnig fóru þeir í útsýnisflug um Þórsmörk og nágrenni. Þá var slegið upp veislu í skálanum í Básum fyrir ferðalangana og er hermt þar hafi verið góður matur og vönduð vín á borðum.
„Lax-ár menn stoppuðu svo við tjaldið hjá okkur þegar þeir fóru til baka og báðust afsökunar á ónæðinu – sem var fúslega veitt,“ sagði María, sem fjallar um málið á bloggsíðu sinni.