Fjórir ökumenn voru í liðinni viku kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis í umdæmi lögreglunnar á Selfossi. Einn ökumaðurinn var svo ölvaður að hann reyndist als ófær um að blása í mæla lögreglu.
Annar ók bíl sínum þvert yfir Suðurlandsveg við Biskupstungnabraut og segir lögregla, að svo virðist sem bíllinn hafi flogið nokkra vegalengd áður en hann lenti í móanum utan vegar. Maðurinn reyndist ómeiddur, þáði gistingu hjá lögreglu og gekkst við broti sínu við yfirheyrslu daginn eftir.
Sá þriðji mældist á 114 km/klst hraða á 90 km/klst kafla og reyndist vera með áfengismagn yfir mörkum við mælingu í útöndunarlofti. Sá var sviptur ökurétti til bráðabirgða. Fjórði ökumaðurinn var tekinn var á Eyrarbakkavegi aðfaranótt laugardags.
45 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt. Sá sem hraðast ók var á bifhjóli og mældist ökuhraði þess 161 km/klst á Suðurlandsvegi til móts við Laugardæli þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km klst. Ökumaður hjólsins má búast við 90 þúsund króna sekt og sviptingu ökuréttar gefi ökuferill hans að öðru leiti ekki tilefni til þyngri refsingar.
Annar ók bíl á 141 km/klst hraða um Hellisheiði og var sá með 9 daga gamalt skírteini.