Sömdu um málamiðlun í stóriðjumálum

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde kynna myndun ríkisstjórnarinnar …
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Geir H. Haarde kynna myndun ríkisstjórnarinnar á síðasta ári. mbl.is/Sverrir

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, segir að gerð hafi verið málamiðlun í stjórnarmyndunarviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn hvað varðar stóriðjuhlé sem boðað er í umhverfisstefnu Samfylkingarinnar, „Fagra Íslandi“.

„Í „Fagra Íslandi“ var talað um að gera stóriðjuhlé og fyrir því voru tvær meginástæður. Önnur var sú að beðið yrði á meðan unnið yrði að gerð rammáætlunar um verndun og nýtingu náttúruauðlinda og það fór ekki inn í stjórnarsáttmála. Þess í stað var samið um aðra aðferðarfræði sem er að ekki verði farið inn á óröskuð svæði á meðan og þannig töldum við okkur ná fram sjónarmiðum náttúruverndar,“ segir hún og bætir við: „Hins vegar töldum við líka að vegna mikillar þenslu í hagkerfinu þá væri það til bóta fyrir hagkerfið að gera stóriðjuhlé. Og núna stöndum við bara í allt öðrum sporum.“

Náttúran aðalmálið

Ingibjörg Sólrún segir að grunnhugsunin að baki „Fagra Íslandi“ sé náttúruvernd. „Það snýst ekki um það hvort það eigi að byggja álver eða ekki,“ segir hún og bætir við: „Grunnhugsunin er að tryggja rétt náttúruverndar við skipulag og við landnýtingu. Það er það sem við viljum ná í gegn með þessari rammaáætlun.“

Veganesti inn í nýja ríkisstjórn

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fylgdi Fagra Íslandi úr hlaði með samnefndri grein í Morgunblaðinu þann 15. september 2006, tveim dögum eftir að stefnan var kynnt. „Við leggjum til að við núverandi aðstæður í umhverfis- og efnahagsmálum verði frekari stóriðjuáformum slegið á frest,“ ritaði Ingibjörg. Í umræðum á Alþingi skömmu síðar sagði hún að Samfylkingin myndi fylgja málinu fast eftir og það yrði veganesti hennar inn í nýja ríkisstjórn.

Enn hægt að framkvæma

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, segir að Samfylkingin hafi fram að þessu ekki fylgt markmiðum „Fagra Íslands“ jafn fast eftir og fyrirheit voru gefin um.

„Hömlulaus stóriðjustefna virðist ennþá vera í fullu gildi og Samfylkingin virðist ekki ráða neitt við það,“ segir hann og bætir við: „Ef umhverfisráðherra hefði verið sínum málstað trú þá hefði hún átt að úrskurða að allar framkvæmdir vegna álvers í Helguvík færu í sameiginlegt umhverfismat.“ Þá telur Árni það hafa verið óþarfa af Össuri Skarphéðinsyni iðnaðarráðherra að skrifa undir frekari viljayfirlýsingu vegna álvers á Bakka og að skóflustunga Björgvins G. Sigurðssonar viðskiptaráðherra við Helguvík hafi verið afar óheppileg. „Það eru enn þrjú ár eftir af kjörtímabilinu,“ bendir Árni á og segir að það ætti að vera nægur tími fyrir Samfylkinguna til þess að koma stefnu sinni í framkvæmd.

Vísar gagnrýni á bug

Ingibjörg Sólrún tekur ekki undir gagnrýni Árna. Hún segir að auk þess að nú sé unnið að rammáætluninni sé verið að vinna að öllum meginmarkmiðum „Fagra Íslands“.
Í hnotskurn
Fagra Ísland skiptist í fjóra kafla og fjallar sá fyrsti um að styrkja stöðu náttúruverndar gagnvart stóriðju. Í öðrum er fjallað um níu svæði sem vernda á nú þegar. Sá þriðji fjallar um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Í fjórða kafla er fjallað um það hvernig auka megi áhrif almennings og frjálsra félagasamtaka í tengslum við náttúruvernd.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka