Tafir hjá Iceland Express

Flugvél Iceland Express, sem sprakk á í gær.
Flugvél Iceland Express, sem sprakk á í gær. mbl.is/Hilmar Bragi

Tafir hafa orðið á flugi hjá Iceland Express í dag. T.d fer vélin til Frankfurt  í Þýskalandi ekki loftið fyrr en kl. 16, en hún átti að fara kl. sjö í morgun. Að sögn upplýsingafulltrúa flugfélagins má rekja seinkunina til bilunar sem kom upp í flugvél sem lenti á Keflavíkurflugvelli í gær.

Hjólbarði á einni farþegaþotu félagsins sprakk eftir vélin lenti á Keflavíkurflugvelli á þriðja tímanum í gær. Vélin var að koma frá Lundúnum með 148 farþega innanborðs. Í þann mund þegar vélin nam staðar sprakk á öðru afturhjóli hennar.

Að sögn Láru Ómarsdóttur, upplýsingafulltrúa Iceland Express, segir að þegar verið var að skipta um hjólbarða hafi komið í ljós að stykki hafi skotist í annan vænginn þegar dekkið sprakk. Var því nauðsynlegt að gera við vænginn og yfirfara vélina. Ekki liggur fyrir hvers vegna dekkið sprakk.

Lára segir að vélin sé orðin klár og nú sé unnið að því að vinda ofan af þeim seinkunum sem orðið hafa. „Við sjáum fram á að þetta verði komið í lag síðdegis. Þetta eru keðjuverkandi áhrif,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Hún hvetur þá sem telja sig eiga rétt á bótum vegna seinkananna setji sig í samband við flugfélagið með því að senda tölvupóst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka