Allt þyrluflug hefur verið bannað í þjóðgarðinum á Þingvöllum í sumar. Ástæðan er miklar kvartanir frá nágrönnum og gestum þjóðgarðsins en framkvæmdir að undanförnu hafa verið umfangsmiklar og hávaðamengun mikil frá þyrlum sem hafa flutt steypusíló og verkfæri að byggingalóðum við Valhallarstíg.
Björn Bjarnason formaður Þingvallanefndar tók þá ákvörðun fyrir helgi að banna flugið fram til fyrsta október en eigendum nýbygginganna var kynnt niðurstaðan í gær.
Sigurður Oddsson, þjóðgarðsvörður, segir að eigendur hafi tekið þessari ákvörðun vel. Unnið er við tvær nýbyggingar við Valhallarstíg en teikning af þeirri þriðju syðst á stígnum hefur verið samþykkt og má vænta þess að framkvæmdir hefjist fljótlega.
Samkvæmt heimildum fréttastofu seljast lóðir við Valhallarstíg á tugi milljóna króna. Lóðasamningar eru einungis gerðir til tíu ára í senn og renna næst út árið 2010.