„Tóku þessu með stóískri ró"

Um 200 Íslendingar eru staddir í fríi á grísku eyjunni …
Um 200 Íslendingar eru staddir í fríi á grísku eyjunni Rhodos. Brynjar Gauti

„Ég held það sé óhætt að fullyrða að Íslendingarnir tóku þessu með stóískri ró," segir Gísli Blöndal, fararstjóri Heimsferða, en um 200 Íslendingar eru staddir á grísku eyjunni Rhodos þar sem jarðskjálfti, sem mældist 6,3 á Ricther, reið yfir í morgun klukkan 6:26 á staðartíma. 

„Þetta var ansi hressilegur kippur, og hann stóð yfir frekar lengi, ég heimsótti stærstu hótelin okkar skömmu eftir skjálftann og þá sat fólk pollrólegt úti í garði," segir Gísli og bætir við að fólk hafi ekki farið strax inn á hótel þar sem umræða hafi verið um hugsanlegan eftirskjálfta.  Gísli segir óhætt að fullyrða að allir hafi fundið fyrir skjálftanum en hann segist ekki hafa heyrt í neinum sem hafi orðið fyrir einhverjum skakkaföllum. 

Gísli segir að töluvert fát hafi verið á íbúum eyjunnar skömmu eftir skjálftann og að fólki hafi þust út úr húsum og hundar æst sig, en það hafi fljótlega róast.

Að sögn Gísla eru jarðskjálftar algengir á Grikklandi en þar verða samanlagt fleiri jarðskjálftar en í allri Evrópu.  Ein kona lést í skjálftanum í morgun þegar hún datt niður stiga í þorpinu Archangelos. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert