Leiðin yfir Kárahnjúkastíflu var opnuð fyrir almennri umferð í dag og verður opin til 15. ágúst í sumar. Fram til þessa hefur umferðin verið afar takmörkuð og aðeins hefur verið leyft að aka yfir stífluna í hádeginu og á kvöldin.
Óheimilt er að stöðva ökutæki eða fara fótgangandi nema á afmörkuðum og merktum útsýnisstöðum. Hvetur Landsvirkjun fólk eindregið til að virða reglur um umferð og öryggi og minnir á að þetta sé enn framkvæmdasvæði og ferðalag um það sé á ábyrgð viðkomandi vegfarenda.
Landsvirkjun hefur merkt ákveðna staði þar sem ferðamenn geta lagt bílum sínum og litast um við stífluna og Hálslón.
Leiðin um Kárahnjúkastíflu tengir saman Vesturöræfi og Brúaröræfi og er ákjósanleg leið frá Austurlandi í Kverkfjöll, Herðubreiðarlindir og fleiri áhugaverða staði vestar á hálendinu. Bundið slitlag er að stíflunni frá Egilsstöðum og tekur sú ferð um einn og hálfan tíma en þegar lengra er haldið taka við fjallvegir sem ætlaðir eru jeppum og fjórhjóladrifsbílum.