Sigmar Eðvarðsson, oddviti sjálfstæðismanna í Grindavík, segir að ágreiningur milli sín og Jónu Kristínar Þorvaldsdóttur um hvar ávaxta skyldi peninga vegna sölu á hlut Grindavíkur í Hitaveitu Suðurnesja hafi valdið því að hún hafi slitið meirihlutasamstarfinu.
Að sögn Sigmars taldi nefnd, sem skipuð var eftir sölu hitaveitunnar, að geyma bæri fjármuni sveitarfélagsins, um 4 milljarða, hjá Landsbankanum. Jóna Kristín hefði hins vegar lofað Sparisjóðnum í Keflavík að helmingur fjárins yrði ávaxtaður þar. „Þetta er hin raunverulega ástæða fyrir slitunum,“ segir hann.
Fráfarandi bæjarstjóri var ráðinn út kjörtímabilið, til fjögurra ára og með sex mánaða uppsagnarfresti. Sigmar segir að þessi háttur hafi viðgengist frá því utanaðkomandi bæjarstjóri var ráðinn í fyrsta sinn fyrir 26 árum og allir flokkar hafi komið að slíkum ráðningum. Kostnaður við bæjarstjóraskiptin er 19,5 milljónir króna, fyrir utan launatengd gjöld, samkvæmt upplýsingum á vef Grindavíkurbæjar, en áður hafði komið fram að kostnaðurinn vegna uppgjörs við fyrrverandi bæjarstjóra væri um 45 milljónir króna.
Jóna Kristín bendir á að hún fái 985 þúsund kr. á mánuði í laun eða tæplega 300 þús. kr. minna en fráfarandi bæjarstjóri. Uppsagnarfrestur sinn sé þrír mánuðir og hún fái ekki greitt fyrir að búa í eigin húsnæði eins og fv. bæjarstjóri (um 249 þús. kr. á mánuði). Ennfremur sparist peningar, þar sem hún afsali sér launum sem bæjarfulltrúi í bæjarráði og bæjarstjórn, alls um 2,4 milljónir.
Sigmar segir þessa útreikninga ekki standast. Miðað við 985 þúsund kr. laun í 22 mánuði sé launatala nýs bæjarstjóra um 21,7 milljónir. Miðað við 20% launatengd gjöld bætist við um 4,3 milljónir. Einnig sé verið að tala um að ráða aðstoðarmann bæjarstjóra og bærinn sé með 18,5% vexti á innistæður sínar en vextirnir lækki vegna aukinna útgjalda. „Þetta er sóun á fjármunum,“ segir hann.