Nú stendur yfir athugun á áhrifum ferðamanna á hegðun refa í Hornvík á Vestfjörðum. Gert er ráð fyrir að nú sé umferð ferðamanna á svæðinu í hámarki.
Fyrsti hluti athugunarinnar var í júní. Þá var valið greni sem vaktað er með mánaðar millibili og hegðun dýranna á þessum tímabilum borin saman. Til stendur einnig að fylgjast með greninu í ágúst.
Ester Rut Unnsteinsdóttir, líffræðingur, og Borgný Katrínardóttir, nemandi í líffræði við Háskóla Íslands, vinna að þessu verkefni sem Melrakkasetur Íslands tekur þátt í ásamt Rannsókna- og fræðasetri Háskóla Íslands, Bolungarvík og Fræðasetri HÍ á Húsavík og Selasetri Íslands, Hvammstanga. Þetta er undirbúningsrannsókn til að meta með hvaða hætti hægt er að mæla áhrif ferðamanna á villt dýralíf.
Í fyrstu ferðinni í júní var franska sjónvarpskonan Cecilie Xavier með í för ásamt
kvikmyndatökumanni en þau voru á ferð um landið til að vinna efni í
þáttaröðina „Guardians of Nature“ sem sýnd er í franska sjónvarpinu.
„Þau höfðu m.a. heimsótt hreindýraslóðir á Austurlandi og Látrabjarg en
voru sammála því að hápunktur ferðarinnar væri að fá að fylgjast með
refarannsóknunum á Hornströndum, þó ekki væri á neinn annan hlut
ferðarinnar hallað“, segir á vefnum melrakkasetur.is.