Sundmaðurinn Benedikt Hjartarson er hálfnaður með að synda yfir Ermarsundið. Hann hefur nú synt yfir 25 km, eða sem jafngildir 20.000 sundtökum. Þrátt fyrir að hafa verið stunginn af marglyttu fyrr í dag hefur sundið gengið ágætlega.
Benedikt hefur verið á sundi frá kl. 7:36 að íslenskum tíma. Að sögn Grétu Ingþórsdóttur, sem er um borð í bátnum sem fylgir Benedikti yfir sundið, er enn nægur kraftur í Benedikti þrátt fyrir að hann hafi fundið fyrir krampa í læri og verið stunginn af marglyttu. Honum var gefið bólgueyðandi lyf við krampanum og histasín við bitinu. Ljóst er að hvorki marglyttur né vöðvakrampar stöðva sundkappann.
Gréta segir að veðrið sé mun betra en spáð hafði verið, eða sólríkt og milt. Sjórinn, sem er um 17,8 gráður, hefur verið sléttur nánast allan tímann. Hann er hins vegar orðinn aðeins úfnari nú síðdegis.
Fram kemur á heimasíðu sundsins að fleiri hafi klifið Everest-tind og farið út í geim, en synt yfir Ermarsundið.