Byggð mun nánast leggjast af í mörgum sveitarfélögum innan fárra áratuga, haldi sama þróun áfram og verið hefur undanfarin fimmtán ár. Þetta kemur fram í skýrslu Byggðastofnunar um byggðarlög þar sem fólksfækkun er viðvarandi. Fækkun íbúa í 22 sveitarfélögum á fimmtán ára tímabili, 1991-2006, var 20,9%. Tíu þeirra eru dreifbýlissveitarfélög, þrjú þéttbýlissveitarfélög og níu falla í báða flokka.
Hugsanlega er það of mikil svartsýni að segja að byggðin hreinlega leggist af. Alla vega kom ekkert annað en bjartsýni fram í samtölum blaðamanns við sveitarstjóra. En það er kannski of mikil bjartsýni. Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga var raunsær í svörum sínum. „Þarna spilar mjög stórt inn í að gömlu atvinnuvegirnir, frumvinnslugreinarnar, hafa verið að gefa eftir og munu gera áfram. Það hefur ekki nægilega margt nýtt komið í staðinn.“
Sóknartækifæri sveitarfélaganna virðast flest liggja í ferðaþjónustu, en ferðamannatíminn á Íslandi er stuttur. Sérstaklega á Vestfjörðum þar sem samgöngur á stórum svæðum yfir vetrartímann eru vægast sagt stopular. Því má segja að bættar samgöngur séu forsendur eflingar.
Sveitarfélög á Vestfjörðum hafa orðið hvað verst úti á undanförnum árum og fækkun þar er einna mest. Þannig var mest fækkun í Árneshreppi, eða 55,8%. Þar verður þó að líta til að 49 einstaklingar eru með lögheimili í hreppnum.
Í Vesturbyggð var ástandið ekki mikið betra. Þar nam fækkun á fimmtán ára tímabili tæpum 38%, og var einna mest á Bíldudal eða yfir fimmtíu prósent. Í Vesturbyggð horfa íbúar til – og vona innilega – að Olíuhreinsunarstöð rísi, enda hefur fiskvinnsla og verslunarrekstur gengið illa.