Bílastæði við Kerið í Grímsnesi var lokað ferðamönnum á rútum í fyrsta sinn í gær. Ferðaskrifstofur sem neituðu að greiða fyrir aðgang að Kerinu lúta banni Kerfélagsins við að leggja í stæðið og leyfa farþegum að skoða Kerið.
Sumar þeirra hafa prentað nýja bæklinga, en vegna lítils fyrirvara þurfa margar að fara þá leið að útskýra fyrir farþegum hvers vegna þessi áfangastaður dettur út.
„Eigendur Kersins, sem allir eru úr viðskiptalífinu, hljóta að sjá að skammur fyrirvari á þessari ákvörðun leiðir til þess að Ferðaskrifstofur þurfa að snuða viðskiptavini sína,“ segir Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Málinu er ekki lokið, heldur eru stofnanir á vegum tveggja ráðuneyta að kanna lögfræðilega stöðu sína og í dag hittir Óskar Magnússon, talsmaður Kerfélagsins, Ólöfu Ýri Atladóttur ferðamálastjóra. Á meðan bíður ferðaþjónustan átekta.