Hluthafar í SPRON eru samkvæmt heimildum 24 stunda margir hverjir óánægðir með það verð sem þeir fá fyrir bréf sín, verði samruni SPRON og Kaupþings banka að veruleika.
„Ég held að það sé almenn óánægja með þetta verð,“ segir Gunnar Þór Gíslason, hlutahafi og fyrrverandi stjórnarmaður í SPRON. Þá þyki ekki góður kostur að fá greitt að 60% hluta með bréfum í Exista. „En svo er spurning hvort óánægjan sé nægilega mikil til að hluthafar hafni samrunanum.“ Samruninn er háður samþykki hluthafundar sem halda á í ágúst.
Hluthafi sem 24 stundir ræddi segist óánægður með að ekki hafi verið miðað við markaðsvirði bréfanna áður en upplýst var um samrunaviðræðurnar sem sagt var frá í lok apríl. Síðan hefur gengi bréfa í SPRON lækkað úr 5 í 3,1.
Hluthafarnir frá greitt að 60% hluta með bréfum í Exista og að 40% hluta með bréfum í Kaupþingi.
Rögnvald Othar Erlingsson, sem sagði sig úr varastjórn SPRON í síðustu viku, segir ástæðuna fyrst og fremst þá að hann sé ósáttur við verðið sem hluthafar fá verði af samrunanum.
„Það er í mínum huga óviðunandi að fá greitt að 60% hluta í Existabréfum,“ segir Rögnvald.
Hann bendir á hversu mikið þau hafi lækkað í verði að undanförnu, sem hafi komið illa við hluthafa í SPRON þar sem sparisjóðurinn á stóran hlut í Exista.
Ef horft er þrjá mánuði aftur í tímann hefur gengi bréfa í Exista lækkað úr um 12 í 6,25 eftir 5,3% lækkun félagsins í gær.
Eins og einn ósáttur hluthafi í SPRON sem 24 stundir ræddu við benti á, er Guðmundur Hauksson, forstjóri SPRON, einnig stjórnarmaður í Exista og Erlendur Hjaltason, stjórnarformaður SPRON, einnig forstjóri Exista.
Hann segir ekki óeðlilegt að bréf í Exista séu boðin til hluthafa í ljósi þess að þau eru stór þáttur í fjárfestingum SPRON. Margir hafi væntingar um að þau muni hækka.
Varðandi tengsl Guðmundar við Exista segir hann menn verða að hafa í huga að ástæða þess að hann sitji í stjórn Exista sé að SPRON er hluthafi í félaginu. „Það hefur verið hlutverk mitt að gæta þessara hagsmuna. En persónulega eru mínir hagsmunir nær alfarið tengdir hlutabréfaverði í SPRON, sem ætti að sýna að það eru hrein heilindi af minni hálfu í þessum viðræðum.“
Ekki náðist í Erlend Hjaltason.