Heilnæm sætindi

Birkisafa safnað í Haukadal
Birkisafa safnað í Haukadal

Birkiís og birkivín eru nokkrar af þeim nýjungum sem Skógrækt ríkisins hefur fundið upp á. Ísinn þykir með eindæmum gómsætur og skemmir ekki fyrir að hann er nokkuð hollur, ólíkt flestum sætindum.

Þeir sem eiga veg og vanda að hvoru tveggja eru Morten Leth og Einar Óskarsson hjá Suðurlandsdeild Skógræktarinnar.

Hvernig skyldi Morten hafa dottið í hug að búa til birkiís? „Ég sá þátt í danska sjónvarpinu þar sem svona ís var gerður og gat náð í uppskriftina. Ég lagaði hana svo aðeins til þar ég var ánægður með útkomuna,“ segir Morten.

Birkisafanum er safnað úr birki í Haukadal og er það einungis mögulegt einn mánuð á ári, hérlendis er það frá miðjum apríl til miðs maí. Borað er í trén þegar brum byrjar að myndast á þeim á vorin, safinn látinn renna úr og holunum síðan lokað aftur. Hvert tré er svo hvílt í eitt til tvö ár á milli safatöku. Birkisafann, sem minnir á mjólk, þarf að meðhöndla rétt og helst hann aðeins ferskur í 5-6 daga í kæli, rétt eins og mjólkin.

Áður en Morten fór út í ís- og víngerð hafði verið gert sýróp úr safanum og heppnaðist það nógu vel til að menn voru spenntir fyrir að reyna aðra hluti líka. Talsvert magn þarf til að gera sýrópið, um hundrað lítrar af safa gefa 1-2 lítra af sýrópi. Í ísinn þarf hins vegar ekki nema einn líter. Um fimmtíu ára gamalt tré gefur að jafnaði af sér fimm lítra á dag af safa.

Morten og félagi hans, Einar Óskarsson,  eru í góðu sambandi við kokkinn á Hótel Geysi sem hefur notað sýrópið við matargerð með góðum árangri og var hann sömuleiðis áhugasamur um ísinn.  Hefur ísinn síðan fengið góðar móttökur á hótelinu.

Morten segir ísinn afar bragðgóðan, helst minni bragðið á vatnsmelónur. Hann sé ferskur og hressandi. Það spilli svo ekki fyrir að birkisafi er talinn heilnæmur. Heimildir eru fyrir því að í honum séu ýmis holl efni sem til að mynda hafi góð áhrif á blóðþrýsting, dragi úr álagi á nýru, séu bólgueyðandi og blóðhreinsandi. Sumir telja jafnvel að hann geti hjálpað í baráttunni við krabbamein.

  Uppskrift að birkisorbet:

  1 líter af ferskum birkisafa

  150 gr sykur

Sjóðið birkisafann og sykurinn saman þar til um það bil helmingur vökvans er eftir. Leyfið blöndunni af kólna og frystið síðan. Takið blönduna út þegar hún er orðin frosin og leyfið henni að bráðna dálítið svo mögulegt sé að skera hana í litla bita. Hrærið hálffrosna bitana saman þar til úr þeim verður hvítur massi en gætið þess að massinn bráðni ekki svo mikið að hann verði vatnskenndur. Frystið aftur og þá er birkisorbet tilbúinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert