Að mati Rannsóknarnefndar flugslysa átti fjárskortur veigamikinn þátt í aðdraganda flugóhappsins í Færeyjum í októberbyrjun 2004 þegar hluti lendingarbúnaðar við nefhjól TF-SYN, Fokker-vél Landshelgisgæslunnar, brotnaði í lendingu. Mildi þótti að ekki fór verr, meðal annars sökum þess að lendingarbúnaðurinn við vinstra hjólið hafði verið úrskurðaður ónothæfur af flugvirkjum Landhelgisgæslunnar.
Eins og fram kemur í harðorðri skýrslu Rannsóknarnefndar flugslysa um atvikið var hart lagt að yfirmönnum flugvirkjanna að skera öll útgjöld við nögl fjárhagsárin 2003 og 2004 og er sú krafa er talin hafa átt hlut að máli um hvernig fór.
Niðurskurðurinn kom fram á mörgum sviðum í starfi Gæslunnar. Dregið var úr æfingaflugi og beðið með viðgerðir á varahlutum sem ekki þóttu bráðnauðsynlegar, ásamt því sem einn viðmælandi blaðsins færði rök fyrir því að leitað hefði verið ódýrari varahluta en ella þegar lendingarbúnaðurinn vinstra megin og við nefhjólið var að nálgast uppgefinn endingartíma.
Aðrir heimildarmenn, sem einnig þekkja vel til málsins, benda á að leitað hafi verið útboðs, á meðan hinir meina að nýr hafi búnaðurinn verið of dýr frá framleiðandanum Messier-Dowty.
Hitt er skýrt að áhyggjur manna af mögulegum afleiðingum niðurskurðarins á flugöryggi í flugrekstri Gæslunnar fóru ekki leynt. Flugöryggisfulltrúi Gæslunnar lét af störfum 2004 og í tilkynningu frá öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna skömmu eftir óhappið í Færeyjum var lýst yfir „furðu“ með að flugmálayfirvöld hefðu ekki lokið „úttekt og vottun á flugrekstri Landhelgisgæslunnar samkvæmt öryggiskröfum flugöryggissamtaka Evrópu (JAA).“