Nefnd Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW) óskaði eftir frekari upplýsingum um ýmis atriði er sendinefnd Íslands kom fyrir nefndina þann 8. júlí.
Spurði nefndin meðal annars um það hversu sýnilegur samningurinn um afnám alls misréttis gegn konum væri í íslensku samfélagi og lagasetningu, hvort samningurinn sé nýttur sem bindandi lagatæki og hvort hann nái yfir öll svið þjóðfélagsins, t.d að því er varðaði fjölskyldu- og menntamál.
Nefndin lýsti einnig vonbrigðum sínum með að engar fyrirætlanir séu um að lögfesta samninginn og lýsti þeirri skoðun að unnt væri að ná jafnrétti hraðar en gert væri t.d með því að styrkja aðgerðaráætlun gegn ofbeldi gegn konum og börnum frá 2006.
Nefndin fjallaði um takmarkaða þátttöku kvenna í stjórnmálum, að konur gegni sjaldnar áhrifastöðum, og frekar hlutastörfum, en karlar og óskaði upplýsinga um hvernig stjórnvöld hyggist vinna gegn þessum vanda. Þá bað nefndin um upplýsingar um hvernig stjórnvöld berjist gegn launamun kynjanna og lýsti áhyggjum sínum af fjölda nauðgana hér á landi og fáum kærum.
Nefndin ræddi einnig mansal og nektardansstaði á Íslandi og vakti máls á óskýrri löggjöf og takmörkuðum stuðningi við fórnarlömb mansals. Lagði nefndin áherslu á að stjórnvöld einbeiti sér að því að vernda fórnarlömb, í stað þess að beina helst athygli að gerendum.
Nefndin spurði jafnframt að því hvernig stjórnvöld fylgdust með tekjum nektarklúbbseigenda af vændi þar sem nú sé ólöglegt að þriðji aðili hagnist á vændi. Jafnframt var fjallað um klám og dreifingu þess og hvort aðgerðaráætlunin gegn ofbeldi gegn konum og börnum feli í sér úrræði gegn útbreiðslu kláms.