Sögðust ekki rukka fyrir Kerið

Eigendur Kersins í Grímsnesi fullyrtu í fjölmiðlum á sínum tíma að ekki stæði til að krefja ferðamenn um greiðslu fyrir að skoða þessa þekktu ferðamannaperlu. Annað er nú komið á daginn.

Í gær var byrjað að meina rútum með ferðamenn um aðgang að svæðinu nema gegn greiðslu. Ferðamenn á einkabílum geta enn skoðað Kerið án þess að opna veskin sín og ekki bar á öðru í morgun en að áhugi á Kerinu hefði talsvert aukist vegna umræðu síðustu daga.

Bræðurnir Sigurður Gísli Pálmason og Jón Pálmason keyptu kerið í Grímsnesi og tíu hektara spildu fyrir tíu milljónir króna í árslok 1999. Kerið er friðlýst og á náttúruminjaskrá og vöktu kaupin talsverða athygli. Nýir eigendur lýstu því yfir að alls ekki stæði til að selja aðgang að kerinu.

Tvö öldruð systkini á Miðengi áttu Kerið fyrir en það hafði verið í eigu sömu fjölskyldu frá 1925. Ríkið átti um skeið í viðræðum um kaup en systkinunum þótti ríkið bjóða lágt. Þá kom einnig fram í fréttum á sínum tíma að systkinin voru ósátt við framkvæmdir inni á svæðinu á vegum Ferðamálaráðs og sögðu þær vera án samráðs og í leyfisleysi.

Í dag hittir Óskar Magnússon, talsmaður Kerfélagsins, Ólöfu Ýri Atladóttur ferðamálastjóra. Á meðan bíður ferðaþjónustan átekta og engar rútur voru við Kerið í morgun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert