Tókst að synda yfir Ermarsund

Benedikt Hjartarsyni hjálpað á land í Frakklandi.
Benedikt Hjartarsyni hjálpað á land í Frakklandi. mynd/Gréta Ingþórsdóttir

Benedikt Hjartarson náði undir miðnættið því takmarki sínu að synda yfir Ermarsund. Benedikt tók land austan við Cap Gris-Nez Frakklandsmegin  klukkan 23:36 að íslenskum tíma og hafði þá synt 60 km vegalengd og verið á sundi í 16 klukkustundir og 1 mínútu. 

„Það var svo æðislegt að skríða upp á sandinn í Frakklandi að ég get varla lýst því með orðum,“ sagði Benedikt við Morgunblaðið.

„Þetta hafðist en það var rosalega erfitt. Ég var tilbúinn að hætta síðustu sjö klukkustundirnar en skipstjórinn var svo harður að hann leyfði mér það ekki," er haft eftir Benedikt á heimasíðu sundsins þegar hann var nýkominn um borð í bátinn. Benedikt sagðist vera nokkuð hress en eins og dauðadrukkinn maður því hann væri með svo mikla sjóriðu.

Um tíma í kvöld var óttast að Benedikt myndi ekki ná landi en hann misst af höfðanum þar sem yfirleitt er komið í land. Straumurinn þar fyrir utan var mikill og erfiður. Á heimasíðu sundsins segir, að skipstjórinn á fylgdarbátnum hafi þá gripið til sinna ráða og látið Benedikt synda alllengi um tvo kílómetra frá landi, þar til hann kom að lítilli vík fyrir austan höfðann. Þar eru minni straumáhrif og auðveldara að komast í land.

Benedikt segist ætla að hvíla sig til morguns og fara svo til White Horse í Dover en þar skrifa allir, sem hafa synt yfir Ermarsundið, nafn sitt á vegg. 

Benedikt, sem er 51 árs að aldri, reyndi á síðasta ári að synda yfir Ermarsund en varð þá að gefast upp skammt frá landi vegna þess hve útfallsstraumurinn var orðinn sterkur. 

Á morgun ætla átta íslenskir sjósundmenn að synda boðsund yfir Ermarsund og til baka aftur ef veður leyfir en veðurspáin mun ekki vera sérlega hagstæð.

Heimasíða sundsins

Benedikt á sundi í kvöld.
Benedikt á sundi í kvöld.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka