Yfirlýsing kemur á óvart

„Það eru nýjar upplýsingar að það hafi verið samið um þetta sérstaklega við stjórnarmyndun,“ segir Mörður Árnason formaður Græna netsins, umhverfishreyfingar Samfylkingarinnar og einn höfunda „Fagra Íslands“, umhverfisstefnu Samfylkingarinnar, um ummæli Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur formanns Samfylkingarinnar að gert hafi verið sú málamiðlun við stjórnarmyndun að boðað stóriðjuhlé var skilið eftir við samningaborðið.

Dofri Hermannsson einn höfunda „Fagra Íslands“ telur að stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar feli í sér fyrirheit um stóriðjuhlé. „Það var ekki samið um að það ættu allar stóriðjuframkvæmdir að halda áfram. Þvert á móti töldum við að ríkisstjórnin ætlaði að hafa einhverja stjórn á því hvenær stórframkvæmdir yrði tímasettar eins og talað var um í stjórnarsáttmálanum,“ segir hann. „Það sem vekur athygli er að Ingibjörg Sólrún sagði að staðan væri núna allt önnur í efnahagsmálum. En hún er bara ekkert önnur. Við erum ennþá að glíma við verðbólgu og það er enn ekki rétti tíminn til þess að fara í stóriðjuframkvæmdir,“ bætir Dofri við og vísar til nýlegrar skýrslu OECD þar sem sagt er að nú sé ekki rétti tíminn fyrir stóriðju.

Dofri bendir á að Ingibjörg Sólrún hafi sagt að aðeins væri pláss fyrir eitt álver innan heimilda og að það væri álit Samfylkingarinnar að það álver ætti að koma á Húsavík. „Nú er álverið sem Samfylkingin vildi númer tvö. Þess vegna er Samfylkingin í mikilli klemmu því nú verður hún að leggja blessun sína á tvö álver þó að það stefni okkur upp úr loftslagsheimildunum og brjóti í bága við það sem Samfylkingin sagði fyrir kosningar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert