Nýráðinn yfirlæknir á réttargeðdeildinni á Sogni hefur hætt við að þiggja starfið. Aðeins einn sótti um þegar starfið var auglýst. Sigurður Guðmundsson, landlæknir, segir þetta greinilega ekki heitasta starfið í bænum.
Sigurður segir margar ástæður fyrir því, ekki síst að þarna séu til meðferðar mjög veikir og erfiðir einstaklingar. Hann segir að horfa beri þó til þess að góður árangur sé af starfi stofnunarinnar. Af þeim fimmtíu sem hafi útskrifast hafi enginn brotið af sér aftur.
Magnús Skúlason, fyrrverandi yfirlæknir, hætti störfum fyrr á þessu ári eftir að upp komst um lyfjamisferli hans. Landlæknir segir að nú séu bundnar vonir við Landspítalann og reynt verði að ná samkomulagi um að spítalinn sinni þessum hóp betur en áður.
Yfirlæknir á Sogni sinnir einng þjónustu við fanga á Litla Hrauni. Löng deila hefur verið milli yfirvalda fangelsismála og Landspítalans vegna heilbrigðisþjónustu fanga. Landlæknir vonast hinsvegar til að atburðir undangenginna mánaða hafi orðið til þess að liðka fyrir málum.