Eldsneytisverð lækkar um 5 krónur

Olíufélög hafa í morgun lækkað eldsneytisverð um 5 krónur hvern lítra. Hjá stóru olíufélögunum kostar lítri af bensíni nú 170,70 krónur og olíulítrinn 188,60 krónur. Í gær lækkuðu olíufélögin eldsneytisverð um 1,20 krónur lítrann.

Magnús Ásgeirsson, innkaupastjóri eldsneytis hjá N1, segir, aðspurður út í lækkunina, að um tilboð sé að ræða hjá fyrirtækinu sem gildir í dag og á morgun. Hjá N1 kostar lítrinn af 95 oktana bensíni 170,6 kr. í sjálfsafgreiðslu, en dísillinn kostar 188,6 kr. Aðspurður telur hann að samkeppnisaðilarnir hafi einnig lækkað verð hjá sér í dag til að bregðast við tilboði N1s.

„Þetta er ágætt fyrir helgarumferðina,“ segir Magnús í samtali við mbl.is.

Hann segir að krónan hafi haldist stöðug í dag og hvað framhaldið varði bíði menn nú eftir því að sjá hvað muni gerast í Bandaríkjunum þegar markaðirnir opna þar í dag. „Ég held að við séum í ágætum málum í augnablikinu, og allir geti verið sáttir. Mér sýnist það. Það sem ég myndi síst vilja sjá núna væri það að heimsmarkaðsverðið færi að rjúka upp aftur og krónan að veikjast,“ segir Magnús.

Í morgun lækkaði Orkan eldsneytisverðið á sínum stöðvum um 5 krónur. Nú kostar því bensín 168,8 kr á lítra og olía 186,4 kr á lítra á Orkustöðvum um allt land.

Hjá Atlantsolíu og ÓB kostar bensínlítrinn 168,9 kr. og dísilolían 186,5 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka